Ég er hægur og öruggur. Mamma biður mig stundum um að rétta sér sósuna eða saltið, það geri ég hægt og örugglega og ég fer aldrei í vatnsrennibrautir. Hjá mér gerist margt mjög hægt. Ég er ennþá með einhverjar barnatennur, alveg aftast. Þess vegna er ég pottþétt ennþá á kynþroskaskeiðinu. Ég borða stundum hratt en þá melti ég hægt og missi af strætó. Um daginn vaknaði ég fullorðinn með yfirvaraskegg og grátt hár. Ég þaut út og náði strætó. Núna fer ég í allar vatnsrennibrautirnar, allavega langar mig í allar vatnsrennibrautirnar. En fyrst verð ég að melta og missa af einum strætó.